top of page

Ungmennarráð Reykjanesbæjar fundaði með Bæjarstjórn


Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar setti fundinn sem fór fram í fundasal bæjarstjórnar, Merkinesi í Hljómahöll. Á fundinum héldu 11 ungmenni úr Ungmennaráðinu stutt erindi um málefni sem þeim fannst mikilvægt að vekja athygli á.

Ungmennin sem fluttu erindi voru þau: Hermann Borgar Jakobsson, Betsý Ásta Stefánsdóttir, Kári Snær Halldórsson, Óliver Már Elvarsson, Helga Vigdís Thordersen, Leó Máni Nguyen, Valur Axel Axelsson, Rúna Björg Sverrisdóttir, Rugile Milleryte, Kamilla Rós Hjaltadóttir og Elmar Sveinn Einarsson.

Fjölbreytileiki, umhverfismál, lýðheilsa og aukin afþreying fyrir ungmenni var rauði þráðurinn í erindum ungmennaráðs að þessu sinni. Mikið var talað um að bæta þyrfti afþreyingu og aðstöðu fyrir ungmenni bæði á unglingastigi grunnskóla og ungmenni á aldrinum 16-25 ára. Það er einfaldlega of lítið að gera fyrir ungmenni á þessum aldri í bæjarfélaginu miðað við hvað er í boði fyrir yngri börn á grunn- og leikskólaldri. Ungmennaráðið lagði til að aðstaðan í 88 húsinu verði bætt ennfrekar og fjárveitingar til ungmennahússins yrðu auknar til að hægt sé að bæta þjónustu ungmenna á aldrinum 16-25 ára.

Fulltrúar Ungmennaráðs ræddu einnig um að mikil þörf sé á fleirum grænum svæðum í bæjarfélaginu og þá sérstaklega í Innri Njarðvíkurhverfi sem og á Ásbrú. Lítið sé um tré og gróður í þessum hverfum.

Ungmennaráðið hrósaði bæjarstjórn fyrir bætta aðstöðu í Sundmiðstöðinni Vatnaveröld en fjölluðu að auki um mikilvægi þess að opið verði lengur á kvöldin virka daga og á sumrin myndi aðstaðan nýtast ungmennum mun betur og fleiri ungmenni á þeirra aldri myndu fara í sund.

Einn meðlimur Ungmennaráðsins talaði fyrir bættri aðstöðu á leiksvæði Myllubakkaskóla og nefndi hann til dæmis að körfuboltavöllurinn sé sá síðasti fyrir utan völlinn við Háaleitisskóla til að vera endurnýjaður og að nemendum skólans finnist það miður að leiksvæðið þeirra sé ekki jafn flott og önnur skólaleiksvæði í bænum.

Bæjarfulltrúar þökkuðu ungmennaráðinu kærlega fyrir sín erindi og hvetur ráðið til að halda áfram að vekja athygli á málefnum sem betur mætti fara í bæjarfélaginu. Bæjarstjórn segist vera stolt að því unnið sé að 5 ára gróðuráætlun fyrir Reykjanesbæ og þar verði lögð mikil áhersla á þessi græn svæði.

Bæjarstjórn hlakkar mikið til að vinna með ráðinu í framtíðinni og óskaði Ungmennarráðinu til hamingju með 10 ára afmæli ráðsins á árinu sem haldið verður upp á síðar á árinu. Kjartan Már Kjartansson Bæjarstjóri lauk fundinum með hlýjum orðum til ráðsins og fagnar því að svo virðist vera sem bærinn sé á réttri leið því mörg málanna sem ráðið talaði um séu í skoðun og sum komin langt á leið.

Bæjarstjóri þakkaði ráðinu fyrir fundinn og þar með var fundi slitið.


Myndir af fundinum má finna hér fyrir neðan


114 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page