Slysavarnadeildin Dagbjörg gaf Hjólabrettaklúbbnum SK8ROOTS 34 hjólabrettahjálma.

Slysavarnadeildin Dagbjörg gaf hjólabrettaklúbbnum okkar 34 hjálma sem hægt er að nota á hjólabrettaæfingum okkar í Fjörheimum. Umsjónarmenn SK8ROOTS þeir Christopher Andri Hill og Omar Ricardo Rondon tóku á móti hjálmunum fimmtudaginn 26.ágúst á formlegri athöfn sem haldin var í 88 húsinu.
"Hjálmarnir eiga eftir að nýtast starfinu okkar vel enda núverandi hjálmabúnaður orðinn þreyttur og lúinn eftir margra ára notkun. Nýju hjálmarnir eru flottir og stílhreinir og eru krakkarnir mjög spenntir að fá að prófa hjálmana. Allir hjólabrettaiðkendur sem æfa hjá okkur þurfa að nota hjálma þar á meðal við kennararnir og munu þessir hjálmar hjálpa okkur helling þar sem áður fyrr áttum við bara 10 hjálma og gátu þar af leiðandi ekki allir nýtt brettin okkar nema þeir sem komu með sína eigin hjálma". Sagði Christopher Andri Hill
SK8ROOTS er hjólabrettaklúbbur sem er starfræktur í húsnæði Fjörheima á veturna og heldur úti skemmtilegum námskeiðum á sumrin. Skráðir iðkendur í SK8ROOTS eru tæplega 60 talsins og heldur starfið áfram að stækka.