Skapandi smiðjur slá í gegn
Skapandi smiðjur er nýtt verkefni á vegum Fjörheima og Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Í sumar hafa ungmenni bæjarins kost á því að taka þátt í lista- og viðburðasmiðju á launum frá Vinnuskólanum. Meðlimir á fyrra tímabili listasmiðjunnar hafa fræðst um ýmis listform og unnið í því að fegra nærumhverfi 88 hússins. Þá hafa þau fengið fræðslu frá gestakennara og unnið verk undir handleiðslu þeirra Omars Rondon og Ingu Jódísar.
Viðburðasmiðjan er með öðru sniði en þar hafa ungmennin unnið hörðum höndum við að setja upp viðburði fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Meðlimir smiðjunnar hafa lært
hvernig skal skipuleggja viðburði, hvernig skal nota gagnrýna hugsun og hvað felst í því að halda viðburði.

Einnig höfðu meðlimir smiðjunnar kost á því að vera í svo kölluðu fjölmiðlateymi sem hefur séð um að mynda viðburði, búa til auglýsingar, myndbönd og lög. Þá hafa ungmennin fengið frjálsar hendur við viðburðahald og ákváðu þau að bjóða upp á skemmtidag fyrir leikjanámskeið, skemmtun fyrir hópa vinnuskólans, uppskeruhátíð skapandi smiðja og viðburð sem kallaður var „Fjörchella“.

Fjörchella var skipulagður viðburður þar sem lagt var áherslu á skemmtun fyrir ungmenni í 8.-10.bekk í anda tónlistar- og listahátíðarinnar Coachella sem haldin er í Kaliforníu í Bandaríkjunum ár hvert. Viðburður þessi fór fram úr björtustu vonum en rúmlega 200 ungmenni mættu.
Bæði listasmiðjan og viðburðasmiðjan hafa fengið góðar undirtektir og verkefni þeirra orðið til mikilla vinsælda. Seinna tímabil smiðjanna byrjar þann 12.júlí og verður gaman að sjá hvaða verkefni ungmennin taka sér fyrir hendur.