top of page

Listasmiðja Reykjaness hefur störf í Fjörheimum


Listasmiðja Reykjaness er nýtt verkefni sem er að fara af stað meðfram starfinu í félagsmiðstöðinni Fjörheimum í vetur.


"Við höfum tekið eftir auknum áhuga ungmenna Reykjanesbæjar á listsköpun og þegar boðið hefur verið upp á listakvöld á opnum húsum í félagsmiðstöðinni síðastliðin ár hefur það verið mjög vinsælt" sagði Davíð Már forstöðumaður Fjörheima


Hugmyndin að verkefninu varð til í kjölfarið af skemmtilegu samstarfsverkefni við Vinnuskóla Reykjanesbæjar í sumar, þar sem ungmennum gafst kostur á að vinna við skapandi smiðjur í Fjörheimum. Þar voru unnin fjöldinn allur af listaverkum sem að fegruðu nærumhverfi félagsmiðstöðvarinnar. Tæplega 80 ungmenni störfuðu við skapandi smiðjurnar í sumar - þar sem boðið var upp á Listasmiðju og Viðburðasmiðju.


"Við erum mjög stolt af því hvernig sumarstarfið tókst til og þá kviknaði þessi hugmynd að reyna að bjóða upp á aukin tækifæri fyrir ungmenni til þess að sinna sinni list í góðum félagsskap í rými sem er hannað fyrir sköpun – þar sem er í lagi að sulla út fyrir, gera tilraunir og hafa gaman." sagði Davíð.


Fjörheimar munu bjóða ungmennum í 8-10.bekk að koma í Listasmiðjuna þrisvar sinnum í viku í vetur – þar sem rýmið verður opið fyrir þau til að koma og vinna að sinni list og prófa nýja hluti. Það er menntaður listamaður sem vinnur í húsinu sem að mun sjá um verkefnið og aðstoða þá sem vilja, en annars er áherslan mest á því að ungmennin hafi frelsi til að skapa það sem þau vilja sjálf.


Boðið verður upp á Listasmiðju fyrir 5-7.bekk samhliða opnu húsi einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni – og ef áhugi er til staðar verður það skoðað að hafa á því að hafa sér listasmiðju fyrir 5-7.bekk í framhaldinu.


Hérna er hægt að sjá kynningarmyndband Listasmiðjunnar fyrir veturinn;



Starfsfólk Fjörheima hefur ráðist í endurbætur á listarýminu og eru alltaf að skoða hvað er hægt að bæta við af búnaði svo að þeir sem hafi áhuga á að prófa nýja hluti geti komið í Fjörheima og gert það í góðum félagsskap.


"Við viljum geta boðið upp á allskonar sköpun, t.d. myndlist, fatahönnun, smíðar og 3D prentun. Markmiðið er auðvitað að kveikja áhuga ungmenna á sköpun og list – og veita þeim aðstöðuna til þess að sinna sínum áhugamálum" segir Ólafur Bergur starfsmaður Fjörheima.


Okkur finnst að ungmenni eigi að hafa möguleika á að mæta í skipulagt listastarf alveg eins og þau mæta á skipulagðar íþróttaæfingar í hverri viku. Við erum rosalega spennt að byrja skólaárið og hvetjum alla sem að þekkja ungmenni sem hafa áhuga á listsköpun að fylgjast vel með dagskrá Fjörheima og kíkja til okkar í vetur" bætir Davíð Már við.

Opnunartímar Fjörheima þetta skólaárið eru eftirfarandi;


- Opin hús fyrir 8-10.bekk

Mánudaga, Miðvikudaga, Föstudaga frá kl. 19:30-21:30


- Opin hús fyrir 5-7.bekk

Þriðjudaga og Fimmtudaga (listasmiðja) frá 18:30-20:00


- Listasmiðja 8-10.bekk

Þriðjudaga, Miðvikudaga, Fimmtudaga frá kl 16:30-18:30


84 views0 comments
bottom of page