top of page

Landsmót Samfés 2019

Um helgina fór Landsmót Samfés fram í 29 skipti í Varmaskóla í Mosfellsbæ. Samtals 540 þáttakendur frá félagsmiðstöðvum víðast af landinu ásamt fulltrúum frá Norðurlöndunum komu saman á þessum ungmennaviðburði. Frá Fjörheimum fóru 5 fulltrúar úr unglingaráði ásamt starfsmanni. Mikil dagskrá var á landsmótinu og löng helgi framundan.


Á föstudeginum var landsmót Samfés sett með glæsilegri setningarathöfn þar sem fram komu tvö tónlistaratriði og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, setti athöfnina með pompi og prakt! Í kjölfar athafnarinnar var kosið í Ungmennaráð Samfés og ungmennin skelltu sér á Carnival þemaball.


Á laugardeginum tóku ungmennin þátt í fjölbreyttum smiðjum. Ungmennin okkar voru mjög ánægð með smiðjurnar en vinsælustu smiðjurnar voru Fokk ofbeldi og Podcast-gerð. Eftir smiðjurnar var blásið í sundlaugarpartý í Lágafellslaug þar sem búið var að setja upp Wipeout-braut og DJ Yuhan skemmti ungmennunum.


Á sunnudeginum fór fram norrænt ungmennaþing þar sem Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson kom og setti þingið. Í kjölfarið var ungmennunum skipt upp í umræðuhópa þar forseti Íslands ræddi við ungmennin um Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðana. Á meðal umfjöllunar var menntun og mannréttindi, sjálfbærni og umhverfismál.


Ungmennaviðburðir eru mikilvægt tækifæri fyrir ungmennin til að kynnast öðru fólki, taka þátt í skipulögðu tómstundarstarfi og fræðast um mikilvæg málefni sem varðar okkur öll. Ungmennin okkar voru mjög ánægð með helgina og koma vel undan henni full af fróðleik og nýjum vinum.