top of page

Fjörugt sumar hjá Fjörheimum

Sumarið er tíminn, birtan er svo unaðsleg og stemningin er gríðarleg, sögðu sprækir menntskælingar á sínum tíma. Það má með sanni segja að sumarið hjá Fjörheimum og 88 húsinu hafi verið nákvæmlega þannig. Nóg var um að vera í húsinu en Vinnuskóli Reykjanesbæjar er starfræktur hjá okkur, lista- og viðburðasmiðjur voru í boði og leikjanámskeið, íþróttafélög og fleiri hópar heimsóttu húsið.


Maímánuður byrjaði á Barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar og voru nokkrir viðburðir haldnir á vegum Fjörheima, þar má nefna sundlaugapartý fyrir 5.-7. Bekk, fjölskylduskemmtun, sumargleði, grafitti námskeið, fatamarkað og Baunaball. Í maí var Samfestingurinn haldinn, sameiginlegt ball félgasmiðstöðva á Íslandi, í Laugardalshöll. Um það bil 4.500 ungmenni sóttu viðburðinn og voru ungmenni Reykjanesbæjar Fjörheimum til sóma á viðburðinum. Síðustu opnu hús skólaársins 2022-2023 voru um mánaðarmót maí og júní og við tóku námskeið fyrir flokkstjóra Vinnuskólans.

Flokkstjórarnir fengu fræðslur og sóttu vinnustofur sem tengdust allar leiðtogahæfni með einum eða öðrum hætti. Vinnuskólinn hófst og haldnir voru fræðsludagar fyrir ungmenni. Ungmennin sóttu annars vegar örstöðvadag með kynningum frá Barnavernd og Vinnuskólanum, fræðslu um samfélagsmiðla og fjármálafræðslu og hins vegar forvarnardag um vespur og rafhlaupahjól.


Samstarfsverkefni vinnuskólans voru mörg, vinna innan íþróttafélaga, leikskóla, leikjanámskeiða og fleira voru meðal þeirra verkefna sem ungmennin gátu valið úr.

Fjörheimar buðu upp á smiðjur í samstarfi við Vinnuskólann, þar sem ungmenni fengu kost á því að vinna við að setja upp viðburði auk listasmiðju þar sem verkefnin snerust að mestu um að fegra 88 húsið og svæðið í kring. Viðburðasmiðja Fjörheima hafði í nógu að snúast í sumar en ungmennin sáu sjálf um umgjörð, skipulag og uppsetningu viðburða fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Ákveðið var að skemmta hópum vinnuskólans með pop-up viðburðum sem innihéldu leiki, veitingar og hópefli.

Þá hélt smiðjan einnig fjölskyldudag í Fjörheimum þar sem boðið var upp á skemmtiatriði, popp, leiktæki, heimsókn frá perunum úr ávaxtakörfunni og opið hús fyrir fólk á öllum aldri. Fjörchella, Fjörheimaball með Coachella þema, var einnig haldið í annað skipti og var öllu tjaldað til.

Hópurinn kíkti svo í heimsókn á Nesvelli og héldu Bingó fyrir eldriborgara bæjarins, þeim að kostnaðarlausu, en hópurinn fjáraflaði fyrir öllum vinningunum.


Fjörheimar þakka fyrir frábært sumar sem er senn á enda, birtan var svo unaðsleg og stemningin var gríðarleg. Nú tekur enn meira stuð og gaman við þar sem vetraropnanir félagsmiðstöðvarinnar byrja á ný síðustu vikuna í ágúst. Hlökkum til að sjá ykkur!


57 views0 comments

Comments


bottom of page